Framsækin fyrirtæki velja Opus Futura
Sem sprotafyrirtæki skiptir sköpum að finna fyrir stuðningi og áhuga frá rótgrónum fyrirtækjum. Við erum því ákaflega ánægð með að hafa tryggt okkur samninga við fjögur stór fyrirtæki til að vera fyrstu notendur Opus Futura. Þessi framsæknu fyrirtæki eru:
- Icelandair sem gerir sér grein fyrir möguleikum Opus Futura og telur það vera heiður að fá að taka þátt í þróun lausnarinnar og nýta hana við að móta nýjar ráðningaraðferðir.
- Arion banki sem deilir okkar sýn og trúir á kraft Opus Futura til að skapa fjölbreyttara vinnuafl án aðgreiningar.
- Landsvirkjun sér ávinninginn í hugbúnaðarlausninni okkar til að uppræta hlutdrægni og tryggja vinnustöðum aðgang að besta hæfileikafólkinu.
- Origo hyggst nýta Opus Futura til að fjölga valkostum í ráðningum með áherslu á að laða til sín framúrskarandi starfsfólk og meta það að verðleikum óháð kyni, aldri og bakgrunni.
Samvinna við þróun
Samstarf okkar við þessi fyrirtæki hefur verið ómetanlegt í gegnum þróunarferlið en hjá þeim höfum við fengið mikilvæga innsýn ásamt hugmyndum og endurgjöf. Nýlegur vinnufundur með Icelandair hafði sem dæmi mikil áhrif á nálgun okkar. Sérþekking þeirra hefur hvatt okkur áfram og tryggt að Opus Futura uppfylli ströngustu kröfur.
Styttist í opnun
Það styttist aldeilis í að við förum í loftið með veflausnina okkar. Þegar þar að kemur munu Icelandair, Arion banki og Landsvirkjun setja öll laus störf hjá sér inn í veflausnina okkar. Saman ætlum við að móta framtíðina í pörunarferli í ráðningum, hlúa að fjölbreytileika og skapa tækifæri fyrir alla.
Við hvetjum alla til að fylgjast með okkur og skrá sig á póstlistann okkur – þú getur þá verið með þeim fyrstu til að skrá þig í Opus Futura.
Ummælin
Hér má annars lesa ummæli frá samstarfsaðilum í heild sinni en þau veita okkur vissulega byr undir báða vængi:
- „Starf Icelandair krefst yfirgripsmikillar þekkingar úr ólíkum atvinnugreinum og við leggjum okkur fram við að nýta bestu fáanlegu tækni til að öðlast aðgengi að sérfræðingum og stjórnendum sem geta lagt sitt af mörkum við uppbyggingu félagsins. Opus Futura er að þróa lausn sem styður við nútíma vinnubrögð og vill leiða saman hagsmuni atvinnuleitenda og fyrirtækja út frá vel skilgreindum forsendum og persónueinkennum. Það er heiður að fá að taka þátt í þróun lausnarinnar og nýta hana við að móta nýjar ráðningaraðferðir,“ Kristján Pétur Sæmundsson, Talent Manager hjá Icelandair.
- „Opus Futura hefur gjörbylt því hvernig á að tengjast mögulegum umsækjendum eða framtíðar starfsmönnum. Fyrir Arion banka sem ráðningaraðila er það mikil breyting að fá aðgang að lausn með upplýsingum um einstaklinga sem eru opnir fyrir spennandi tækifærum, jafnvel þótt þeir séu ekki í virkri atvinnuleit. Með Opus Futura getum við skoðað ferilskrár hæfra umsækjenda án nokkurrar hlutdrægni persónuupplýsinga og þar með tryggt sanngjarnt og hlutlægt valferli. Þetta er ómetanleg auðlind sem straumlínulagar ráðningarstarf okkar og leiðir vonandi til okkar hæfileikaríkt fólk í fremstu röð,“ Helga Halldórsdóttir, mannauðsstjóri Arion banka.
- “Við hjá Landsvirkjun erum afar ánægð með að fá aðgang að nýrri lausn sem kemur með ferska nálgun og nýjan hugsunarhátt við ráðningu starfsfólks. Ég er á því að vinnustaðir verði að ná til breiðari hóps fólks en einungis þeirra sem eru í virkri atvinnuleit. Ég tel það einnig dýrmætt þeim sem eru virkir í atvinnuleit að fá fjölbreyttari möguleika og á þá sé litið frá öðru sjónarhorni. Þar með uppgötvast ef til vill ný tækifæri fyrir alla aðila. Með Opus Futura lausninni getum við dregið úr hlutdrægni sem hefur tilhneigingu til að trufla mat á einstaklingum í störf og gefa okkur þannig mun fjölbreyttari hóp af hæfileikaríku fólki, eitthvað sem gagnast öllum,“ Harpa Víðisdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landsvirkjunar.
- „Með tilkomu Opus Futura gefst okkur sem vinnuveitanda, kostur á að bjóða fólki til samtals um störf, byggt á því hvernig við uppfyllum kröfur þeirra og væntingar en ekki eingöngu út frá því hvernig þau uppfylla okkar kröfur. Opus Futura tryggir að einstaklingar séu undir nafnleynd í ferlinu og tryggt að allir sem parast við okkur eigi þess kost á að taka upplýsta ákvörðun um samtal, án þess að þurfa að veita okkur aðgengi að persónugreinanlegum gögnum. Þannig fáum við tækifæri til að kynnast fjölda hæfileikaríks fólks, sem annars myndi ekki sækja um auglýst störf, en er jafnvel það framtíðarstarfsfólk sem Origo byggir árangur sinn á,“ segir Dröfn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Origo.