Alli í stjórn Opus Futura
Við fögnum því innilega að hafa Aðalgeir Þorgrímsson, eða Alla eins og flestir þekkja hann, sem einn af þremur stjórnarmönnum Opus Futura.
Alli hefur á síðustu þremur árum sinnt starfi framkvæmdastjóra rekstrar hjá nýsköpunarfyrirtækinu Lucinity og á þeim tíma komið að flestum þáttum í rekstri og uppbyggingu fyrirtækisins og sókn á erlenda markaði. Hann hefur því töluverða innsýn í þá vegferð sem er framundan hjá Opus Futura og við fullviss um að hans reynsla eigi eftir að koma sér vel fyrir okkur.
Alli hefur auk þess um tveggja áratuga reynslu úr hugbúnaðargeiranum. Sat í framkvæmdastjórn RB þar sem hann kom m.a. að vöruþróun og rekstri fjármálalegra tækniinnviða landsins. Þá bjó hann í nokkur ár í Prag og tók þátt í uppbyggingu á starfsemi CreditInfo í Tékklandi á upphafsárum útrásar félagsins.
Við erum viss um að þekking og reynsla Alla eigi eftir að nýtast okkur í Opus Futura ákaflega vel og hlökkum til að starfa með honum.
Stjórn Opus Futura
Stjórn Opus Futura skipa annars auk Alla, Einar Örn Ólafsson, tæknistjóri Opus Futura og Elín Gränz, framkvæmdastjóri mannauðsmála RFS (Retail & Food Service Solution) hjá Marel.