Opus Futura tryggir 70 milljón króna fjármögnun
Sprotafyrirtækið Opus Futura ehf. hefur lokið sinni fyrstu fjármögnunarlotu að upphæð 70 milljónir króna. Að baki fjármögnuninni eru reynslumiklir fjárfestar, þar á meðal F. Bergsson ehf. í eigu Frosta Bergssonar og Omega VC, fjárfestingafélag Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar.
Fjármögnuninni er ætlað að styrkja þróun lausnar Opus Futura, auk sölu- og markaðsstarfs. Samhliða fjármögnuninni bætir Opus Futura við sig starfsfólki. Nú starfa fjórir starfsmenn hjá fyrirtækinu og stefnt er á að ráða þrjá til viðbótar á næstu vikum.
“Aðkoma þessara öflugu fjárfesta færir okkur mikinn byr í seglin og gerir okkur kleift að hlaupa hraðar. Við erum nýbúin að opna á notkun fyrstu útgáfu lausnarinnar og finnum mikinn áhuga frá einstaklingum og fyrirtækjum, enda eina lausn sinnar tegundar á Íslandi og þó víðar væri leitað. Væntingar einstaklinga til vinnustaða hafa gjörbreyst og sífellt færri leggja það á sig að fara í gegnum tímafrekt og ógagnsætt ráðningarferli. Þetta leiðir til þess að fyrirtæki eiga í erfiðleikum með að finna rétta fólkið, ráðningarferlið þyngist og verður stöðugt dýrara. Opus Futura tryggir einstaklingum fullkomið nafnleysi, losar þá undan því að þurfa að sækja um störf, ásamt því að færa fyrirtækjunum aðeins það fólk sem passar best í starfið og spara þannig heilmikinn tíma og kostnað í ferlinu,” segir Helga Jóhanna Oddsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Opus Futura.
Um Opus Futura
Opus Futura er íslenskt fyrirtæki sem hefur þróað lausn sem parar sjálfkrafa saman einstaklinga og störf á mun ítarlegri hátt en áður, auk þess að tryggja nafnleynd einstaklinga sem skrá sig í grunninn. Nú þegar hafa nokkur öflug fyrirtæki byrjað að nota lausnina og nokkur þúsund einstaklingar hafa skráð sig. Lausnin verður í stöðugri þróun og nýjar þjónustur bætast við innan lausnarinnar. Þannig eflum við stuðning okkar við ráðningarferli fyrirtækja og færum einstaklingum tækifærin sem þeim henta, án fyrirhafnar. Markmiðið er að auka gæði ráðninga til muna, stytta tíma og stórlækka kostnað sem þeim fylgir og veita stjórnendum og einstaklingum innsýn í hversu líklegt farsælt ráðningarsamband þeirra á milli er. Þannig leggjum við okkar af mörkum til að lágmarka hlutdrægni, minnka sóunina sem felst í því að fólk fær ekki tækifæri við hæfi, minnka starfsmannaveltu og auka lífsgæði fólks, því fólk sem er ánægt í starfi er líklegra til að finna fyrir meiri lífsánægju almennt.
Nánari upplýsingar og viðtöl veitir:
Helga Jóhanna Oddsdóttir
Stofnandi / CEO
Netfang: helga@opusfutura-is.trudy.shared.1984.is
Sími: +354 860 5212